Á ekki jafnt yfir alla hjúkrunarfræðinga landsins að ganga?

 Kæri landi, ég vil vekja athygli þína á eftirfarandi ójöfnuði:

 

Í samræmi við Yfirlýsingu um útfærslu á jafnlaunaátaki, dags. 13. febrúar 2013 sem velferðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra undirrituðu, hvar segir m.a. að veita eigi tilteknu fjármagni til stofnanasamninga heilbrigðisstofnana, hófst átakið þegar stofnanasamningur hjúkrunarfræðinga á Landspítala (LSH) var endurskoðaður nú í vetur. Þar með hefur helmingur allra hjúkrunarfræðinga á landinu fengið viðurkenningu á launamisréttinu og hækkað í launum.

 

Nú ber svo við að ekki virðist eiga að fylgja átakinu eftir við endurskoðun stofnanasamninga hins helmings hjúkrunarfræðinga landsins en Sjúkrahúsið á Akureyri (FSA), Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) [og nú síðast HSS - innskot höfundar] hafa ekki fengið vilyrði frá fjármála- og efnahagsráðherra um viðbótarfjármagn í endurskoðaða stofnanasamninga þeirra sem sumir eru annars tilbúnir til undirskriftar.

 

"Í viðræðum fulltrúa Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) við fjármála- og efnahagsráðherra í byrjun ársins var lögð áhersla á að FÍH myndi sækja sambærilegar kjarabætur og samið var um á LSH, fyrir hjúkrunarfræðinga starfandi á öðrum heilbrigðisstofnunum.Formaður FÍH hefur óskað eftir viðræðum við fjármála- og efnahagsráðherra vegna fjárveitinga til endurskoðunar stofnanasamninga hjúkrunarfræðinga á ofangreindum stofnunum."

 

 Það er bæði von mín og krafa að staðið verði við gefin loforð hið allra fyrsta því jafnlaunaátakið á ekki bara við á LSH heldur alls staðar á landinu!


Slegið á hendur Geirs

Geir (hinn harði) gerir lítið úr dómurum sínum og ásakar þá um ósjálfstæði í hugsun og vinnubrögðum. Að mínu mati er það fyrir neðan virðingu fyrrverandi forsætisráðherra að tala svo niðrandi um æðsta dóm þjóðarinnar - þingi hverrar hann hafði forsæti yfir um hríð og átti að stjórna en gerði ekki að mati dómstólsins. 

Hvað segja þessi ummæli um Geir sjálfan? Augljóslega unnir hann fólki ekki sjálfstæði í skoðunum ef þær eru á skjön við hans. Hann er ekki tilbúin að láta segjast eða hann vill bara ekki láta skamma sig opinberlega?

Í huga mínum vaknar sú spurning hvort Geir tali af reynslu þegar hann ásakar dómara sína um að láta undan þrýstingi?

Til umhugsunar:

Staðreynd: Fáir fundir um yfirvofandi bankahrun í upphafi árs 2008.

Staðreynd: Bankahrun!

Staðreynd: Geir hefur verið fundinn sekur. Ég dæmi hann ekki - það sjá dómstólar um.

Spurning: Á ekki að kæra sökudólgana í ríkisstjórninni sem gerði allt sem hún gat til að blása bankakerfið út m.a. með því að hvetja til óráðsíu og lántöku langt umfram raunþörf og skynsemi, sjálfstæðisflokk?

Betri spurning: Er ekki kominn tími til að hætt að velta sér upp úr fortíðinni? Gert er gert og við getum aðeins lært af þessu - ekki breytt þessu - og komið í veg fyrir að þetta gerist á nýjan leik. Gefum fólki tækifæri - samt ekki ótakmarkað og alls ekki leyfa því að endurtaka leikinn!


Icesave fyrir dómstóla!

Ástæðan er ótrúlega einföld og skýr ef staðan er sett fram í myndlíkingu:

Ímyndum okkur að við [útrásarvíkingar] fáum lánaða fullt af breskum og hollenskum peningum [innlagnir Breta/Hollendinga á icesavereikninga] að andvirði icesave-skuldapakkans en verðum svo gjaldþrota og getum ekki endurgreitt féð [innistæðutrygginasjóður sem staðsettur var á íslandi er tómur því íslenskt fjármálaeftirlit stóð ekki sína plikt].

Bresk og hollensk stjórnvöld ákveða þá að endurgreiða innistæðueigendum [Bretu/Hollendingar] og grípa þá til þess ráðs að hneppa okkur og landa okkar [útrásarvíkinga og Íslendinga] í skuldafangelsi [setja á landið hryðjuverkalög] í þeim tilgangi að fá endurgreitt eða semja um endurgreiðslur.

Innistæðueigendur [Bretar/Hollendingar] sleppa okkur svo úr skuldafangelsinu [aflétta hryðjuverkalögunum] og einbeita sér að því að semja við okkur um endurgreiðslur skuldanna [inneignanna].

Af því má draga margar ályktanir og sterklega þá að þeir eigi á einhvern hátt ekki rétt á endur greiðslu af okkar hálfu og beri sjálfur ábyrgð á tapinu [fjáramálaeftirlit Breta/Hollendinga stóð ekki heldur sína plikt].

Hver á þá að bera hið fjárhagslega tjón innistæðueigenda?

Er svarið: Við [útrásarvíkingar ] eða innistæðueigendurnir [Bretar/Hollendingar]?

Er svarið: Stjórnvöld sumra, eða allra landanna, því fjármálaeftirlit þeirra með bæði innistæðutrygginasjóðum og lánaferlinu var ekki fullnægjandi ?

Til að fá úr því skorið hver beri ábyrgðina og eða hvernig hún dreifist þarf þá ekki að leita til dómstóla?


Fréttamennska?

 Á tímum niðurskurðar í heilbrigðisþjónustunni getum við ekki farið að byggja Vaðlaheiðargöng...

Heyri ég rétt?

Og þetta hangir saman af því að…það hentar höfuðborgarbúum að spara úti á landi...?

Fréttamenn setja fram illa grundaðar spurningar og stjórnmálamenn svara þeim í stað þess að leiðrétta leiðandi spurninguna: Þetta eru alls óskyld málefni sem eru algjörlega óháð hvort öðru!


Gefðu mér gott í skóinn góði jólasveinn í nótt

Sumum foreldrum finnst að sýna eigi þeim umburðarlyndi sem eiga nóga peninga til að kenna börnunum sínum í gegnum jólasveininn að mismunun sé náttúrulögmál sem ber að hygla.

Öðrum foreldrum finnst að skólarnir eigi að hafa áhrif á foreldra í þessum efnum. Skógjafir berast, eðlilega, í tal í skólunum og valda sumar vanlíðan barna sem upplifa vanmátt sinn í gegnum "hallærislega" jólasveina í samanburði við "ógeðslega flotta". Nema það sé híað á þessa fáu (vonandi að þeir séu fáir) sem fá óskynsamlega dýrar skógjafir? Hvort tveggja veldur vanlíðan og valdabaráttu!

Ég vil trúa því að allir foreldrar vilji eiga hamingjusöm börn.

Af hverju (fjársterkir) foreldrar virðast margir telja að áhrifamesta breytan í hamingjujöfnu barna sinna snúist um að gefa þeim dýra hluti skil ég ekki. Kannski bara misvitrir einstaklingar þar á ferð.

Af hverju virðast þá efnaminni foreldrar trúa því að ein áhrifamesta breytan í hamingjujöfnu eigin barna snúist um dýru hlutina annarra manna barna? Það skil ég ekki heldur.

Ég hef samt á tilfinningunni að ef við gerðum siðferðismálum hærra undir höfði, sem víðast, í samfélaginu þá myndi fólk síður missa sig í að gefa fáránlega dýra hluti í skóinn. Það eru rök sem ég skil. 

Annars er þessi skógjafaumræða fremur lítilvæg í samanburði við svo margt annað. Mig langar að stinga upp á þvi að þeir sem finna ekkert fyrir því að gefa gallabuxur, ipod eða snjóbretti í skóinn gefi heldur eitthvað fyrir þúsundkall og mismuninn í góðgerðastarfsemi. Það kennir börnunum hvernig skipta skal kökunni og njóta hennar um leið!


Það er stundum alveg ótrúlegt hvað fær athygli fjölmiðla

Að minnsta kosti alveg einn heill læknir "véfengir kosti vatnsþambsins". Ýmsir læknar véfengja hitt og þetta þar á meðal að bólusetningar séu af hinu góða. Það er gott að lesa flesta fjölmiðla með MJÖG gagnrýnum hug og leyfa sér ekki að draga ályktanir af illa grunduðu fréttaefni.

Ég veit ekkert um það hvort vatnsdrykkja eykur einbeitingu en vísindaleg rök eru til fyrir því að vatnsdrykkja sé beinn áhrifavaldur á starfsemi nýrna og hafi þar af leiðandi áhrif á útskilnað baktería og úrgangsefna. Þannig eru t.d. auknar líkur á að bakteríur sem valda þvagfærasýkingum (blöðrubólgu) nái að fjölga sér nægilega til að valda einkennum drekki fólk of lítið af vatni eða öðrum koffeinfríum vökva.

Þar sem úrgangsefni og bakteríur sem ekki skiljast út um nýrun fara aftur út í blóðrásina er hægt að leiða að því líkur að þau geti allt eins haft neikvæð áhrif á húðina eins og önnur líffæri.

Er ekki bara allt gott í hófi?


Glæpur og glæpur

Já heimur versnandi fer. Það kemur nú ekki beinlínis á óvart að Rihanna varpi ábyrgðinni frá sér til foreldra í þessu samhengi.

Margir eru engan veginn tilbúnir til að bera ábyrgð á sjálfum sér, hvað þá öðrum. Um all nokkurt skeið hefur mér virst það siðferðisleg stefna (ameríkanseruð aðallega) að fólk verði að taka lögin í eigin hendur vilji það "að réttlætið" nái fram að ganga, með öðrum orðum það verði að hefna sín. Þannig hefur það lengi þótt í lagi að fremja glæp í vestrænu "menningarefni" svo fremi sem ekki kemst upp um glæpinn. Eins þykir sjálfsagt og svalt að hefna sín þannig að það þykir í besta lagi að drepa "vonda kallinn". Þetta er hættuleg þróun sem stefnir hægt og sígandi í nýja skálmöld; drepa fyrst og spyrja svo.

Það sem stakk mig í þessari umfjöllun er samt ekki ábyrgðarleysi Rihönnu. Nei. Það sem mér fannst athugavert við þessa umfjöllun er að kynferðisglæpurinn sem liggur að baki morðinu í texta Rihönnu fær enga athygli. Nauðgunin fær akkúrat núll umfjöllun. Hvorki virðist áhugi fyrir því að ræða óeðlið sem kynferðisglæpir eru né þá staðreynd að fæstum kynferðisbrotamönnum er refsað eða að brotaþolar búa flestir við svo mikinn andlegan miska að það er eiginlega ótrúlegt að þeir skuli ekki myrða ofbeldismenn sína oftar en raun ber vitni (næstum aldrei)!


mbl.is „Ég er rokkstjarna - ekki foreldri!"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lóðrétt hamingja ávísun á lárétta

Mér virðist stundum sem karlar horfi allt öðru vísi á heimilið en konur - að metnaður þeirra liggi frekar eða að miklu leiti í vinnunni. Þó er ég sannfærð um að flestir þeirra hafa metnað fyrir að eiga ánægðar eiginkonur en halda gjarna að sú hamingja sé eingöngu fengin á láréttunni...þeir verða svo innilega að fara að fatta að aukin lóðrétt heimilisverkaþátttaka þeirra eykur líkur á (láréttri) hamingjusamri eiginkonu og þar af leiðandi þeirra eigin hamingju. Þetta er ekki einasta mín skoðun heldur niðurstaða vísindalegra kannana á hegðun fólks í sambúð. Eða er ekki hin mesta hamingja að stuðla að hamingju annarra? Ég er sjaldan glaðari en þegar maðurinn minn er í skýjunum. Nota bene með mér en ekki bara fyrir mína tilstuðlan <3


Eiginmenn í Malasíu - ekki eigin menn?

Hakan seig niður á bringu og höfuð mitt hóf að tina í heiðarlegri afneitun þegar ég las um að til eru konur sem virðast trúa því að hamingja maka þeirra sé fólgin í að þær hafi ofan af fyrir þeim.

Konur eru konum verstar, hugsaði ég og fannst mér renna blóðið til skyldunnar að taka upp hanskann fyrir kynsystur mínar í Malasíu sem mér finnst gróflega misboðið með jafn sorglegum vitnisburði og að þær vilji stofna klúbba til að temja hvor annarri að búa við hámarks niðurlægingu innan hjónabanda sinna.

Það gengur kraftaverki næst að körlum, í Malasíu, skuli hafa tekist að telja konum þar trú um að lífshamingja múslimskra kvenna sé fólgin í að fórna eigin skemmtanalífi til að geðjast maka sínum. Með því að vera undirgefnar og hlýðnar telja þær sig geta komið í veg fyrir framhjáhald, skilnaði og heimilisofbeldi. Ábyrgðin fyrir hamingju í hjónabandi er þeirra.

Þarna fóru að renna á mig tvær grímur. Ábyrgð kvennanna felst í að skemmta eiginmönnunum svo þeir leiti ekki annað og beiti þær ekki ofbeldi. Körlunum er sem sagt ekki treystandi til að sýna þann viljastyrk að standast freistingar sem gætu varpað skugga á hjónaband þeirra. Körlum í Malasíu er þannig augljóslega ekki treystandi til að bera ábyrgð á eigin hegðun og hamingju, hvað þá eiginkvenna sinna.

Hvort er nú meira niðrandi hlutskipti að vera kona eða karl í Malasíu?


mbl.is Klúbbur fyrir hlýðnar konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Anna Lísa Baldursdóttir
Anna Lísa Baldursdóttir
Móðir, kona, meyja. Misjöfn og mislynd, margreynd og málgefin. Menntuð en ómenningarleg á stundum. Ekki endilega í þessari röð.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband