Færsluflokkur: Kjaramál

Upp með hendur - niður með brækur

Ætlaði þessi ríkisstjórn aldrei að "semja" við hjúkrunarfræðinga um launahækkun? Bjarni Ben birtist með krókodílatár í sjónvarpi allra landsmanna og sór að á meðan samtal væri í gangi væri enn von um að samningar næðust þótt hann vissi að samtalið var einhliða og kröfur okkar fengu aldrei svo mikið sem áheyrn.

Eftir 9 "samningafundi" birtist seðlabankastjóri og tilkynnti að í ljósi meiri launahækkana en spár bankans hefðu gert ráð fyrir neyddist bankinn til að hækka stýrivexti. Bíðum við... en það er ekki búið að samþykkja neina samninga! Hvenær hefur tekið jafn langan tíma að koma samnginum í atkvæðabært ferli og nú og hvað tefur? ER þetta útspil seðlabanka ekkert annað en dulbúin hótun um að lýðurinn skuli nú aldeilis fara að draga úr kröfum sínum ella hafi hann verra af? Upp með hendur og niður brækur eða við hækkum vexti svo verðbólgan vaði uppi á ykkar ábyrgð! Ykkar verður kostnaðurinn! Með þessum gjörningi rak ríkisstjórnin síðasta naglann í samningakistuna okkar! 

Orð landlæknis og heilbrigðisráðherra um að verkfalli verða að ljúka sem fyrst undirstrika mikilvægi hjúkrunarfræðinga í heilbrigðiskerfinu en verkfall okkar hefur aðeins staðið í tvær vikur. Kannski var tímasetningin röng. Kannski erum við með ranga ríkisstjórn.

Hjúkrunarfræðingar búa við mikla togstreitu í dag því það er þyngra en tárum taki að þurfa að beita verkfallsaðgerðum og geta ekki sinnt sjúklingunum okkar og þurfa svo á sama tíma að sitja undir því ámæli að við séum einir ábyrgir fyrir þeirri mögulegu hættu sem að sjúklingum okkar steðjar vegna þess að við erum í verkfalli. Ábyrgðin er fyrst og fremst hjá viðsemjanda okkar sem ætti að hafa séð sóma sinn í að bjóða okkur upp á sanngjörn og samkeppnishæf laun áður en til verkfallaðgerða kom.

Ríkisstjórnin virðist staðráðin í að halda launum hjúkrunarfræðinga vel neðan við hefðbundnar háskólamenntaðar karlastéttir sem hjá ríkinu starfa. Við hljótum því að velta því fyrir okkur hvort þessi tregða til að meta menntun og störf hjúkrunarfræðinga til launa stafi mögulega af virðingarleysi fyrir stéttinni; þessari kvennastétt sem í gegnum tíðina hefur gjarna mætt því viðhorfi að hjúkrun sé og eigi að vera gæluverkefni vel giftra kvenna.

Íslenskir hjúkrunarfræðingar hafa afar góða menntun sem nágrannalönd okkar hafa lengi kunnað að meta til launa.  Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að allt að þriðjungur hjúkrunarfræðinga mun sennilega segja starfi sínu lausu nú þegar launagreiðandinn ætlar sér að stöðva verkfallið með lagasetningu. Sú gjörð er í huga okkar hörmuleg misbeiting valds gegn þessu löglega verkfæri kjarabaráttu Íslendinga.

Ég vil að störf mín séu metin að verðleikum en því er þessi ríkisstjórn greinilega ekki sammála. Ég hef því aðeins eitt að segja að lokum: Niður með ríkisstjórnina!


mbl.is Lög verði sett á verkföllin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur 2 í verkfalli

Landlæknir virðist sannfærður um mikilvægi hjúkr­un­ar­fræðinga (hjúfr.) í heil­brigðisþjón­ust­u og hafa meiri áhyggjur af notendum þjón­ust­unnar nú en í læknaverkfallinu. Víst gekk það á í hrinum og var ekki ótímabundið en læknar höfðu þó 60%-95% hærri laun en hjúfr. og lá því ekki alveg eins mikið á og hjúfr. að fá "leiðrétt" laun til þess að ráða við reikningana.

Það sem er allrar athygli vert er að landlæknir skuli kalla ástandið núna svo óþolandi að hann nánast biðlar til ríkisins um lög á verkfall hjúfr. sbr. orð hans um að "því verði að ljúka með ein­um eða öðrum hætti". Af hverju ekki að óska þess að ríkið SEMJI við hjúfr. þannig að sómi sé að?  

Byrjunarlaun nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga eru á bilinu 290.375- 304.313 krónur eða ámóta og hinn almenni markaður óskar eftir að verði lágmarkslaun hans. Lægri mega þau nú heldur ekki vera ef landinn á að lifa af laununum sínum og ég unni almenningi þessara launa fullkomlega.Á hitt ber að líta að hjúkrunarfræði krefst 240 eininga náms, 4 ára BS gráðu, og ætti með réttu að skila einhverju aukalega í launaumslagið, svona fyrir utan ábyrgðina sem starfi hjúfr. fylgir. Það getur ekki talist óraunhæf krafa að fá laun til jafns við aðra háskólamenntaða einstaklinga sem sinna sambærilegum störfum og ábyrgð. Það getur heldur varla talist óraunhæf krafa að við viljum höfum tök á að endurgreiða ríkinu námslánin okkar. 

Sjálf taldi ég mig vera að fjárfesta í framtíðinni þegar ég nam hjúkrunarfræði en staðan er nú sú að eftir 8 ár í starfi, 85 eininga viðbótardiplomanám í skurðhjúkrun, nær 6 ár í háskóla, uppsker ég heilar 390.606 krónur í grunnlaun. Ég elska starfið mitt en það reynir óhugnanlega á fjárhagsleg þolmörk mín og ég er við það að springa á limminu. 

Íslenskir hjúkrunarfræðingar eru metnir til launa erlendis, því ekki hérlendis? Kannski er ráð að hverfa úr þessum öldudal íslensku krónunnar og "sjálfstæðis". Eða finnst þér freistandi að fara í fótspor hjúkrunarfræðinga?

Aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar virðast mér róa öllum árum að enn frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Ég á ekki að þurfa, og vil ekki þurfa, að vinna fyrir ríka fólkið til að fá góð laun. Heldur vil ég vinna fyrir landsmenn alla og fá fyrir það sómasamleg og sanngjörn laun. Er það virkilega til of mikils mælst?


Er verið að undirbúa jarðveginn fyrir einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar?

samsæriskenning dagsins.is

Það verður aldeilis til að styðja málstað einkavæðingar læknisþjónustu ef hinir gráðugu (ríkisstjórnarflokkarnir) henda í frumvarp (ef það bíður ekki bara á bríkinni) sem leyfir fólki að kaupa sig framfyrir biðlista ríkisstofnana með einkalæknisþjónustu. 

Því lengur sem sjúklingum er haldið í gíslingu aðgerðarleysis stjórnvalda þess meiri líkur eru á að "fjárfestar" "þurfi" að koma að samningaborðinu af hálfu hinna gráðugu. 

Það á að sekta landann ef hann pungar ekki út fyrir náttúrupassa en stenst svo ekki freistinguna ef hann finnur sig knúinn til að aka út fyrir bæinn sinn. Mér er því spurn hvað stöðvar hina gráðugu í að skella í eins og eina mismunun til viðbótar í heilbrigðiskerfinu?

Við erum gríðarlega mörg sem höfum fengið nóg af sögunni um að "allir hinir" muni heimta réttlát laun líka, ef gengið verður að launakröfum lækna. Ekki síst í ljósi þess að það virðast vera til óendanlega djúpar gullkistur fyrir undarleg forgangsmál á borð við sérhannaðar mubleringar í ráðuneytum, þegar verndaðan rass vantar margmilljóna bifreið eða fjölskyldur eru fluttar í sendiráð erlendis ásamt stuðningsfjölskyldum (ritarar og hjálparlið) - allur kostnaður greiddur!

Læknar eru ekki ofaldir af laununum sínum, frekar en aðrir heilbrigðisstarfsmenn svo sem, en þeir fara hins vegar að verða í útrýmingarhættu ef ríkisstjórnin gefur ekki eftir eitthvað af silfurskeiðunum sínum.

Kæra ríkisstjórn: Farðu nú að hætta þessari græðgi og vinna að málinu því til heilla en ekki hamfara. Eða vægið fyrir þeim sem vitið hafa meira og afhendið þeim verkið sem við það ráða. 


mbl.is „Sjúklingar deyja að óþörfu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Anna Lísa Baldursdóttir
Anna Lísa Baldursdóttir
Móðir, kona, meyja. Misjöfn og mislynd, margreynd og málgefin. Menntuð en ómenningarleg á stundum. Ekki endilega í þessari röð.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband