Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015
28.5.2015 | 11:52
Dagur 2 í verkfalli
Landlæknir virðist sannfærður um mikilvægi hjúkrunarfræðinga (hjúfr.) í heilbrigðisþjónustu og hafa meiri áhyggjur af notendum þjónustunnar nú en í læknaverkfallinu. Víst gekk það á í hrinum og var ekki ótímabundið en læknar höfðu þó 60%-95% hærri laun en hjúfr. og lá því ekki alveg eins mikið á og hjúfr. að fá "leiðrétt" laun til þess að ráða við reikningana.
Það sem er allrar athygli vert er að landlæknir skuli kalla ástandið núna svo óþolandi að hann nánast biðlar til ríkisins um lög á verkfall hjúfr. sbr. orð hans um að "því verði að ljúka með einum eða öðrum hætti". Af hverju ekki að óska þess að ríkið SEMJI við hjúfr. þannig að sómi sé að?
Byrjunarlaun nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga eru á bilinu 290.375- 304.313 krónur eða ámóta og hinn almenni markaður óskar eftir að verði lágmarkslaun hans. Lægri mega þau nú heldur ekki vera ef landinn á að lifa af laununum sínum og ég unni almenningi þessara launa fullkomlega.Á hitt ber að líta að hjúkrunarfræði krefst 240 eininga náms, 4 ára BS gráðu, og ætti með réttu að skila einhverju aukalega í launaumslagið, svona fyrir utan ábyrgðina sem starfi hjúfr. fylgir. Það getur ekki talist óraunhæf krafa að fá laun til jafns við aðra háskólamenntaða einstaklinga sem sinna sambærilegum störfum og ábyrgð. Það getur heldur varla talist óraunhæf krafa að við viljum höfum tök á að endurgreiða ríkinu námslánin okkar.
Sjálf taldi ég mig vera að fjárfesta í framtíðinni þegar ég nam hjúkrunarfræði en staðan er nú sú að eftir 8 ár í starfi, 85 eininga viðbótardiplomanám í skurðhjúkrun, nær 6 ár í háskóla, uppsker ég heilar 390.606 krónur í grunnlaun. Ég elska starfið mitt en það reynir óhugnanlega á fjárhagsleg þolmörk mín og ég er við það að springa á limminu.
Íslenskir hjúkrunarfræðingar eru metnir til launa erlendis, því ekki hérlendis? Kannski er ráð að hverfa úr þessum öldudal íslensku krónunnar og "sjálfstæðis". Eða finnst þér freistandi að fara í fótspor hjúkrunarfræðinga?
Aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar virðast mér róa öllum árum að enn frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Ég á ekki að þurfa, og vil ekki þurfa, að vinna fyrir ríka fólkið til að fá góð laun. Heldur vil ég vinna fyrir landsmenn alla og fá fyrir það sómasamleg og sanngjörn laun. Er það virkilega til of mikils mælst?
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar