Montna stelpan og bratti strákurinn.

Ég hef mikið velt því fyrir mér af hverju konur og karlar fá ekki sömu laun fyrir sömu vinnu. Þegar ég lít í eigin barm og hugsa til þess gríðarstóra kvenna- og karlahóps sem ég hef kynnst í gegnum störf og leik dettur mér í hug félagsmótun. Án þess að alhæfa nokkuð langar mig að viðra aðeins hugleiðingar mínar um hugtakið jafningjauppeldi. Skoða hvernig ég hef upplifað það, ýmist sjálf eða í gegnum aðra, og draga af því ályktanir um hugsanlegar orsakir kynbundins launamunar. Smá innlegg í orsakaflóruna ef svo má segja.

 

Fáir eða engir fíla stelpur sem eru góðar með sig. Montnin stelpa, feit eða mjó, lítil eða stór, ef þú ert stelpa er ekki við hæfi að vekja viljandi á þér athygli, virðast stolt af sjálfri þér, gorta af eigin getu og vera komin í grunnskóla.  Athygliþörfin er krúttleg á meðan stelpan er lítið stýri og hefur ekki vit á heiminum en je minn, hvað heldur hún eiginlega að hún sé? má heyra kannski sjö átta ára stöllur hennar segja hvor við aðra. Eða þær snúa bara settlega í hana bakinu. Ef stelpa skyldi nú í ofanálag vera sérlega vel gefin ég tala nú ekki um með ADHD er viðbúið að einelti verði hennar hlutskipti. Ef stelpu finnst til um sjálfa sig er hún gjarna litin hornauga af kynsystrum sínum sem kalla hana merkilega með sig og gera lítið úr henni á ýmsan hátt enda flestar grænar af öfund yfir því að hún skuli þora. Hún sem er ekkert merkilegri en ég...

Frekar en að þora líka og þurfa að standa undir væntingum eða áreiti frá öðrum stelpum er auðveldara að falla í hópinn, taka undir gagnrýni á þær sem skera sig úr og gera ekkert til að vekja á sér persónulega athygli. Smám saman lærist þessum stúlkukornum að það er bara ansi þægilegt að vera áhorfandi og ekki sú sem athygli vekur nema þá í hóp. Hjarð-athygli er s.s. almennt viðurkennd meðal kvenna því þá gerir ein stelpa hvorki lítið úr öðrum né nýtur hún  athygli á kostnað annarra stelpna. Einhvern vegin svona virðumst við reyna að vernda hvor aðra fyrir áföllum seinna í lífinu, við brjótum niður útlagana og þéttum hópinn. Með því að vera sjálfum okkur verstar fáum við líka skráp gegn hinu kyninu...

Hjarðhegðun kvenna hefur blessunarlega verið á undanhaldi síðan konur almennt lærðu að lesa en þegar kemur að athygli skal helst ríkja nokkuð jafnrétti.  Þannig höfum við nánast hvatt til þess að setja megi okkur allar á sama stall, það megi s.s. setja okkur niður sem ýtir undir þá mýtu að við séum nú ekki ýkja vel gerðar til verka sem vekja athygli út á við og ekki á nein kona skilið að fá betri laun en önnur! Hvað er svo sem líka sanngjarnt við það?

Skv. ofantöldu er ósköp eðlilegt að konur eigi erfitt með að verðleggja eigið vinnuframlag og vilja vera metnar af verðleikum sínum af yfirmönnum og helst láta bjóða sér kauphækkanir. As if!!!

 

 

Flestir ef ekki allir fíla stráka sem eru passlega góðir með sig. Töffarinn vex og dafnar innan um aðra töffara sem hvetja hvern annan til að þora og ögra hver öðrum til að skara fram úr í róló, sandkassanum eða á hjólinu. Keppni og kjaftháttur er ekki það sem skilur þá að heldur bindur þá saman og þegar sá sterkasti sigrar fagna félagarnir og setja sér markmið í einrúmi. Ég skal! Smám saman færir strákurinn sig upp á skaftið uns hann fær, verðskuldaða að eigin mati, athygli hópsins og er fagnað sem sigurvegara. Brattur gæi. Skiptir þá engu hvort það er í fótbolta, slagsmáli eða ef hann er sá sem fyrstur rakaði sig. Eða skrópa í tíma. Ójöfnuðurinn heldur þeim á tánum og þeir keppast um að koma fyrstir í mark og vera hver öðrum fremri. Strákar eru í félagi hvor við annan. Bölva kannski þeim bestu en vilja frekar vera vinir hans en óvinir. Þeim lærist smám saman að séu þeir nógu útsjónarsamir, fyndnir, klárir eða bara kjaftforir eigi þeir allt gott skilið en þá er líka nauðsynlegt að vekja á sér athygli. Samkeppnisvaninn hvetur þá svo til að finnast eðlilegt að fara fram á tiltekin laun eða launahækkanir. Þeir verðleggja eigið vinnuframlag upp í topp og fara létt með. Þegar útlit er fyrir að strákur sem strákurinn þekkir sé komin með ansi feitan tékka verður það að áskorun fyrir hann að falast eftir hærri launum sjálfur.

 

Nú get ég af ofansögðu ályktað t.d. að það sé ekki síst jafningjauppeldið sem skilur á milli feigs og ófeigs þegar kemur að launamálum kynjanna. Ég tel að íslenskum körlum finnst alls ekkert í lagi að konur þeirra, mæður, dætur eiginkonur o.s.frv. hafi með óútskýrðum hætti, lægri laun en þeir frekar en íslenskum konum finnist það. Sennilega eru til undantekningar á því en sjálf man ég ekki eftir að hafa hitt manneskju þeirrar skoðunar að vinnuframlegð launþega sé ekki aðalatriði heldur kyn viðkomandi. M.ö.o. virðist landinn sammála um að laun skulu óháð kynferði.

Af hverju viðgengst þá launamunur milli karla og kvenna?

Kannski er karlar aðeins "of" duglegir að verðleggja sig en það er bara ekki okkar vandamál kæru konur, við ættum heldur að læra af þeim að vilja skara fram úr í stað þess að falla í fjöldann. Höfum hátt þegar við þurfum þess, samgleðjumst þegar aðrar konur fá betri laun en við og verum óhræddar við að nýta okkur þær aðstæður, í stað þess að öfundast,  fyrir okkur sjálfar að hækka í launum. Sækjum í kastljósið því það hreyfist hratt yfir fjöldann og við gleymumst öll fljótt. Verum sigurvegarar!

 

Ég las einhvers staðar að þeir sem vilja stjórna ættu síst að fá að stjórna. Kannski tími sé til komin að við sem ekki viljum stjórna gerum fleira en okkur þykir gott :)

 

Að lokum

Hvernig ætli launamálum fólks af óræðu kyni (gender bender/gender queer) sé háttað? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Anna Lísa Baldursdóttir
Anna Lísa Baldursdóttir
Móðir, kona, meyja. Misjöfn og mislynd, margreynd og málgefin. Menntuð en ómenningarleg á stundum. Ekki endilega í þessari röð.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband