Færsluflokkur: Bloggar

Jól, börn og sól

"Að föndra, syngja jólalög og dansa í kringum jólatré hefur ekkert með trú að gera...jólin eru alls ekki kristin hátíði" segir Íris nokkur Edda. Þetta er ekki alls kostar rétt því "jól" eru kristin hátíð sem var á sínum tíma dagsett viljandi samdægurs heiðinna manna sólstöðuhátíð til að auðvelda/einfalda/(?blekkja) siðskiptingum siðaskiptin.

Í dag má kannski hártoga þýðingu jólanna en rétt er samt rétt í grunninn!

Það er hlutverk menntastofnana að mennta fólk (börn eru líka fólk).Þess vegna segi ég: Föndrum í verknámsgreinum, syngjum í tónlistartímum og dönsum í íþróttatímum, heimsækjum söfn trúfélaga líkt og önnur söfn í beinu samhengi við námsefnið s.s. samfélagsfræði og trúarbragðafræði og reynum að nota skólana sem þá stofnun sem þeim er ætlað að vera: Stofnun með kennurum (sem eru líka fólk) sem MENNTA börnin okkar.

Skólar eiga hvorki að vera afþreyingarheimili né áningarstaður fyrir börn og enn síður ásteitingssteinn fyrir ólík trúarbrögð og hlutverk kennara er barasta alls ekki að vera boxpoki fyrir frústreraða foreldra.

Ég er í kirkjukór en finnst trúarjátningin barn síns tíma. Þess tíma sem fáfræði var ríkjandi og kirkjusókn fólks var notuð til að verðleggja það í augum guðs. Þá var guðsóttinn hrís líkt og enn er í íslamstrú. Allt gott gerist sennilega bara frekar hægt.

Það er erfitt fyrir óþolinmóða einstaklinga og samfélög að bíða eftir því að aðrir einstaklingar og önnur samfélög átti sig á nýjasta sannleikanum í trúmálum. Við höfum þó alltaf það val að reyna að sýna umburðarlyndi eða ekki. Hvað velur þú?


Negrasálmar í Akureyrarkirkju

 

Negrasöngvar og sálmar eru dýrmæt arfleifð sem færir okkur sársaukafullar sögur

úr lífi þrælsins en um leið von um að ánægjulegri tímar séu framundan.

 

Saga negrasöngva og sálma er órjúfanlega tengd þrælahaldi Ameríkana á fólki frá vesturströnd Afríku á 17. öld allt til 1865 er þrælahaldið var afnumið.

 

Einsöngur plantekruþræla um hörmuleg lífskilyrði urðu að vinnusöngvum fjöldans en þar sem þrælahaldar leyfðu hvorki dans né trommuslátt,eins og þessara fyrrum Afríkubúa var vani,neyddust þeir til að hittast á laun til að deila gleði sinni, sársauka og vonum.

 

Þrælahald var álitamál í augum kirkjunnar og því var þrælum leyft að sitja undir guðsþjónustum. Að tilbeiðslu lokinni nýttu þrælarnir tækifærið til að syngja saman og dansa.Undir lok 17. aldar urðu fyrstu trúarlegu negrasöngvarnir til,innblásnir af boðskap Jesú Krists og Biblíunnar.

 

Ófáir afrískir þrælar freistuðu þess að flýja þrældóminn og sungu um "heimili mitt" eða "fyrirheitna landið", sem var norðurbakki Ohio ár eða "Jordan", sem og um Underground Railroad neðanjarðarsamtökin sem hjálpuðu þeim að flýja helsið í frelsið.

 

Unnið upp úr: negrospirituals.com/history.htm

 

 

KÓR Akureyrarkirkju flytur negrasálma/negro spirituals í Akureyrarkirkju sunnudaginn 16. nóvember kl. 20.


Myrt til að nauðga til að útrýma. Ísrael - Palestína.

Að hóta er ekki það sama og gera EN ef hótun er ekki fylgt eftir hættir fólk að taka mark á henni. Þar af leiðandi er þetta engin lausn sem Mordechai Kedar dregur fram sem staðreynd; eða hvers konar lausn er það á stríði milli 2ja þjóða ef konu annarrar þjóðarinnar er nauðgað af karli hinnar ? Það liggur í hlutarins eðli að það byði upp á hefndaraðgerðir => stríðinu lyki ekki fyrr en önnur þjóðin lægi í valnum.

Í því ljósi má ætla að LÍKLEGT sé að orð Kedars gefi hermönnum og ísraelskum borgurum réttlætingu til að nauðga konum því þannig "ná þeir markmiðum Ísraels" svo vitnað sé til orða forseta, forsætisráðherra Ísraels og annarra talsmanna Ísraela. Markmið þeirra eru ansi hreint skýr:

Stöðva árásir Hamasliða (lesist; útrýma Palestínumönnum) halda þeim í herkvínni og koma í veg fyrir að þeir geti sótt vopn (lesist; vistir, lyf o.fl. lífsnauðsynlegt sem komast þarf landleiðina) og endurheimta Ísrael fyrir Ísraela (lesist; hernema Gaza).Allt í nafni trúar hinnar útvöldu þjóðar á guðinn sem valdi þá til að yrkja þetta guðs útvalda land!

Heimildir:

 

http://www.dv.is/frettir/2014/7/24/israelskur-fraedimadur-segir-naudganir-einu-leidina-til-ad-stodva-hrydjuverkamenn/

http://www.mbl.is/frettir/search/?qs=%C3%ADsrael+Palest%C3%ADna&period=0&category=&sort=1&submit=Leita 

 

Biblían, gamla testamentið, hin heilaga bók kristinna.

Torah, hin heilaga bók gyðinga.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Montna stelpan og bratti strákurinn.

Ég hef mikið velt því fyrir mér af hverju konur og karlar fá ekki sömu laun fyrir sömu vinnu. Þegar ég lít í eigin barm og hugsa til þess gríðarstóra kvenna- og karlahóps sem ég hef kynnst í gegnum störf og leik dettur mér í hug félagsmótun. Án þess að alhæfa nokkuð langar mig að viðra aðeins hugleiðingar mínar um hugtakið jafningjauppeldi. Skoða hvernig ég hef upplifað það, ýmist sjálf eða í gegnum aðra, og draga af því ályktanir um hugsanlegar orsakir kynbundins launamunar. Smá innlegg í orsakaflóruna ef svo má segja.

 

Fáir eða engir fíla stelpur sem eru góðar með sig. Montnin stelpa, feit eða mjó, lítil eða stór, ef þú ert stelpa er ekki við hæfi að vekja viljandi á þér athygli, virðast stolt af sjálfri þér, gorta af eigin getu og vera komin í grunnskóla.  Athygliþörfin er krúttleg á meðan stelpan er lítið stýri og hefur ekki vit á heiminum en je minn, hvað heldur hún eiginlega að hún sé? má heyra kannski sjö átta ára stöllur hennar segja hvor við aðra. Eða þær snúa bara settlega í hana bakinu. Ef stelpa skyldi nú í ofanálag vera sérlega vel gefin ég tala nú ekki um með ADHD er viðbúið að einelti verði hennar hlutskipti. Ef stelpu finnst til um sjálfa sig er hún gjarna litin hornauga af kynsystrum sínum sem kalla hana merkilega með sig og gera lítið úr henni á ýmsan hátt enda flestar grænar af öfund yfir því að hún skuli þora. Hún sem er ekkert merkilegri en ég...

Frekar en að þora líka og þurfa að standa undir væntingum eða áreiti frá öðrum stelpum er auðveldara að falla í hópinn, taka undir gagnrýni á þær sem skera sig úr og gera ekkert til að vekja á sér persónulega athygli. Smám saman lærist þessum stúlkukornum að það er bara ansi þægilegt að vera áhorfandi og ekki sú sem athygli vekur nema þá í hóp. Hjarð-athygli er s.s. almennt viðurkennd meðal kvenna því þá gerir ein stelpa hvorki lítið úr öðrum né nýtur hún  athygli á kostnað annarra stelpna. Einhvern vegin svona virðumst við reyna að vernda hvor aðra fyrir áföllum seinna í lífinu, við brjótum niður útlagana og þéttum hópinn. Með því að vera sjálfum okkur verstar fáum við líka skráp gegn hinu kyninu...

Hjarðhegðun kvenna hefur blessunarlega verið á undanhaldi síðan konur almennt lærðu að lesa en þegar kemur að athygli skal helst ríkja nokkuð jafnrétti.  Þannig höfum við nánast hvatt til þess að setja megi okkur allar á sama stall, það megi s.s. setja okkur niður sem ýtir undir þá mýtu að við séum nú ekki ýkja vel gerðar til verka sem vekja athygli út á við og ekki á nein kona skilið að fá betri laun en önnur! Hvað er svo sem líka sanngjarnt við það?

Skv. ofantöldu er ósköp eðlilegt að konur eigi erfitt með að verðleggja eigið vinnuframlag og vilja vera metnar af verðleikum sínum af yfirmönnum og helst láta bjóða sér kauphækkanir. As if!!!

 

 

Flestir ef ekki allir fíla stráka sem eru passlega góðir með sig. Töffarinn vex og dafnar innan um aðra töffara sem hvetja hvern annan til að þora og ögra hver öðrum til að skara fram úr í róló, sandkassanum eða á hjólinu. Keppni og kjaftháttur er ekki það sem skilur þá að heldur bindur þá saman og þegar sá sterkasti sigrar fagna félagarnir og setja sér markmið í einrúmi. Ég skal! Smám saman færir strákurinn sig upp á skaftið uns hann fær, verðskuldaða að eigin mati, athygli hópsins og er fagnað sem sigurvegara. Brattur gæi. Skiptir þá engu hvort það er í fótbolta, slagsmáli eða ef hann er sá sem fyrstur rakaði sig. Eða skrópa í tíma. Ójöfnuðurinn heldur þeim á tánum og þeir keppast um að koma fyrstir í mark og vera hver öðrum fremri. Strákar eru í félagi hvor við annan. Bölva kannski þeim bestu en vilja frekar vera vinir hans en óvinir. Þeim lærist smám saman að séu þeir nógu útsjónarsamir, fyndnir, klárir eða bara kjaftforir eigi þeir allt gott skilið en þá er líka nauðsynlegt að vekja á sér athygli. Samkeppnisvaninn hvetur þá svo til að finnast eðlilegt að fara fram á tiltekin laun eða launahækkanir. Þeir verðleggja eigið vinnuframlag upp í topp og fara létt með. Þegar útlit er fyrir að strákur sem strákurinn þekkir sé komin með ansi feitan tékka verður það að áskorun fyrir hann að falast eftir hærri launum sjálfur.

 

Nú get ég af ofansögðu ályktað t.d. að það sé ekki síst jafningjauppeldið sem skilur á milli feigs og ófeigs þegar kemur að launamálum kynjanna. Ég tel að íslenskum körlum finnst alls ekkert í lagi að konur þeirra, mæður, dætur eiginkonur o.s.frv. hafi með óútskýrðum hætti, lægri laun en þeir frekar en íslenskum konum finnist það. Sennilega eru til undantekningar á því en sjálf man ég ekki eftir að hafa hitt manneskju þeirrar skoðunar að vinnuframlegð launþega sé ekki aðalatriði heldur kyn viðkomandi. M.ö.o. virðist landinn sammála um að laun skulu óháð kynferði.

Af hverju viðgengst þá launamunur milli karla og kvenna?

Kannski er karlar aðeins "of" duglegir að verðleggja sig en það er bara ekki okkar vandamál kæru konur, við ættum heldur að læra af þeim að vilja skara fram úr í stað þess að falla í fjöldann. Höfum hátt þegar við þurfum þess, samgleðjumst þegar aðrar konur fá betri laun en við og verum óhræddar við að nýta okkur þær aðstæður, í stað þess að öfundast,  fyrir okkur sjálfar að hækka í launum. Sækjum í kastljósið því það hreyfist hratt yfir fjöldann og við gleymumst öll fljótt. Verum sigurvegarar!

 

Ég las einhvers staðar að þeir sem vilja stjórna ættu síst að fá að stjórna. Kannski tími sé til komin að við sem ekki viljum stjórna gerum fleira en okkur þykir gott :)

 

Að lokum

Hvernig ætli launamálum fólks af óræðu kyni (gender bender/gender queer) sé háttað? 


Á ekki jafnt yfir alla hjúkrunarfræðinga landsins að ganga?

 Kæri landi, ég vil vekja athygli þína á eftirfarandi ójöfnuði:

 

Í samræmi við Yfirlýsingu um útfærslu á jafnlaunaátaki, dags. 13. febrúar 2013 sem velferðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra undirrituðu, hvar segir m.a. að veita eigi tilteknu fjármagni til stofnanasamninga heilbrigðisstofnana, hófst átakið þegar stofnanasamningur hjúkrunarfræðinga á Landspítala (LSH) var endurskoðaður nú í vetur. Þar með hefur helmingur allra hjúkrunarfræðinga á landinu fengið viðurkenningu á launamisréttinu og hækkað í launum.

 

Nú ber svo við að ekki virðist eiga að fylgja átakinu eftir við endurskoðun stofnanasamninga hins helmings hjúkrunarfræðinga landsins en Sjúkrahúsið á Akureyri (FSA), Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) [og nú síðast HSS - innskot höfundar] hafa ekki fengið vilyrði frá fjármála- og efnahagsráðherra um viðbótarfjármagn í endurskoðaða stofnanasamninga þeirra sem sumir eru annars tilbúnir til undirskriftar.

 

"Í viðræðum fulltrúa Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) við fjármála- og efnahagsráðherra í byrjun ársins var lögð áhersla á að FÍH myndi sækja sambærilegar kjarabætur og samið var um á LSH, fyrir hjúkrunarfræðinga starfandi á öðrum heilbrigðisstofnunum.Formaður FÍH hefur óskað eftir viðræðum við fjármála- og efnahagsráðherra vegna fjárveitinga til endurskoðunar stofnanasamninga hjúkrunarfræðinga á ofangreindum stofnunum."

 

 Það er bæði von mín og krafa að staðið verði við gefin loforð hið allra fyrsta því jafnlaunaátakið á ekki bara við á LSH heldur alls staðar á landinu!


Slegið á hendur Geirs

Geir (hinn harði) gerir lítið úr dómurum sínum og ásakar þá um ósjálfstæði í hugsun og vinnubrögðum. Að mínu mati er það fyrir neðan virðingu fyrrverandi forsætisráðherra að tala svo niðrandi um æðsta dóm þjóðarinnar - þingi hverrar hann hafði forsæti yfir um hríð og átti að stjórna en gerði ekki að mati dómstólsins. 

Hvað segja þessi ummæli um Geir sjálfan? Augljóslega unnir hann fólki ekki sjálfstæði í skoðunum ef þær eru á skjön við hans. Hann er ekki tilbúin að láta segjast eða hann vill bara ekki láta skamma sig opinberlega?

Í huga mínum vaknar sú spurning hvort Geir tali af reynslu þegar hann ásakar dómara sína um að láta undan þrýstingi?

Til umhugsunar:

Staðreynd: Fáir fundir um yfirvofandi bankahrun í upphafi árs 2008.

Staðreynd: Bankahrun!

Staðreynd: Geir hefur verið fundinn sekur. Ég dæmi hann ekki - það sjá dómstólar um.

Spurning: Á ekki að kæra sökudólgana í ríkisstjórninni sem gerði allt sem hún gat til að blása bankakerfið út m.a. með því að hvetja til óráðsíu og lántöku langt umfram raunþörf og skynsemi, sjálfstæðisflokk?

Betri spurning: Er ekki kominn tími til að hætt að velta sér upp úr fortíðinni? Gert er gert og við getum aðeins lært af þessu - ekki breytt þessu - og komið í veg fyrir að þetta gerist á nýjan leik. Gefum fólki tækifæri - samt ekki ótakmarkað og alls ekki leyfa því að endurtaka leikinn!


Icesave fyrir dómstóla!

Ástæðan er ótrúlega einföld og skýr ef staðan er sett fram í myndlíkingu:

Ímyndum okkur að við [útrásarvíkingar] fáum lánaða fullt af breskum og hollenskum peningum [innlagnir Breta/Hollendinga á icesavereikninga] að andvirði icesave-skuldapakkans en verðum svo gjaldþrota og getum ekki endurgreitt féð [innistæðutrygginasjóður sem staðsettur var á íslandi er tómur því íslenskt fjármálaeftirlit stóð ekki sína plikt].

Bresk og hollensk stjórnvöld ákveða þá að endurgreiða innistæðueigendum [Bretu/Hollendingar] og grípa þá til þess ráðs að hneppa okkur og landa okkar [útrásarvíkinga og Íslendinga] í skuldafangelsi [setja á landið hryðjuverkalög] í þeim tilgangi að fá endurgreitt eða semja um endurgreiðslur.

Innistæðueigendur [Bretar/Hollendingar] sleppa okkur svo úr skuldafangelsinu [aflétta hryðjuverkalögunum] og einbeita sér að því að semja við okkur um endurgreiðslur skuldanna [inneignanna].

Af því má draga margar ályktanir og sterklega þá að þeir eigi á einhvern hátt ekki rétt á endur greiðslu af okkar hálfu og beri sjálfur ábyrgð á tapinu [fjáramálaeftirlit Breta/Hollendinga stóð ekki heldur sína plikt].

Hver á þá að bera hið fjárhagslega tjón innistæðueigenda?

Er svarið: Við [útrásarvíkingar ] eða innistæðueigendurnir [Bretar/Hollendingar]?

Er svarið: Stjórnvöld sumra, eða allra landanna, því fjármálaeftirlit þeirra með bæði innistæðutrygginasjóðum og lánaferlinu var ekki fullnægjandi ?

Til að fá úr því skorið hver beri ábyrgðina og eða hvernig hún dreifist þarf þá ekki að leita til dómstóla?


Fréttamennska?

 Á tímum niðurskurðar í heilbrigðisþjónustunni getum við ekki farið að byggja Vaðlaheiðargöng...

Heyri ég rétt?

Og þetta hangir saman af því að…það hentar höfuðborgarbúum að spara úti á landi...?

Fréttamenn setja fram illa grundaðar spurningar og stjórnmálamenn svara þeim í stað þess að leiðrétta leiðandi spurninguna: Þetta eru alls óskyld málefni sem eru algjörlega óháð hvort öðru!


Það er stundum alveg ótrúlegt hvað fær athygli fjölmiðla

Að minnsta kosti alveg einn heill læknir "véfengir kosti vatnsþambsins". Ýmsir læknar véfengja hitt og þetta þar á meðal að bólusetningar séu af hinu góða. Það er gott að lesa flesta fjölmiðla með MJÖG gagnrýnum hug og leyfa sér ekki að draga ályktanir af illa grunduðu fréttaefni.

Ég veit ekkert um það hvort vatnsdrykkja eykur einbeitingu en vísindaleg rök eru til fyrir því að vatnsdrykkja sé beinn áhrifavaldur á starfsemi nýrna og hafi þar af leiðandi áhrif á útskilnað baktería og úrgangsefna. Þannig eru t.d. auknar líkur á að bakteríur sem valda þvagfærasýkingum (blöðrubólgu) nái að fjölga sér nægilega til að valda einkennum drekki fólk of lítið af vatni eða öðrum koffeinfríum vökva.

Þar sem úrgangsefni og bakteríur sem ekki skiljast út um nýrun fara aftur út í blóðrásina er hægt að leiða að því líkur að þau geti allt eins haft neikvæð áhrif á húðina eins og önnur líffæri.

Er ekki bara allt gott í hófi?


Glæpur og glæpur

Já heimur versnandi fer. Það kemur nú ekki beinlínis á óvart að Rihanna varpi ábyrgðinni frá sér til foreldra í þessu samhengi.

Margir eru engan veginn tilbúnir til að bera ábyrgð á sjálfum sér, hvað þá öðrum. Um all nokkurt skeið hefur mér virst það siðferðisleg stefna (ameríkanseruð aðallega) að fólk verði að taka lögin í eigin hendur vilji það "að réttlætið" nái fram að ganga, með öðrum orðum það verði að hefna sín. Þannig hefur það lengi þótt í lagi að fremja glæp í vestrænu "menningarefni" svo fremi sem ekki kemst upp um glæpinn. Eins þykir sjálfsagt og svalt að hefna sín þannig að það þykir í besta lagi að drepa "vonda kallinn". Þetta er hættuleg þróun sem stefnir hægt og sígandi í nýja skálmöld; drepa fyrst og spyrja svo.

Það sem stakk mig í þessari umfjöllun er samt ekki ábyrgðarleysi Rihönnu. Nei. Það sem mér fannst athugavert við þessa umfjöllun er að kynferðisglæpurinn sem liggur að baki morðinu í texta Rihönnu fær enga athygli. Nauðgunin fær akkúrat núll umfjöllun. Hvorki virðist áhugi fyrir því að ræða óeðlið sem kynferðisglæpir eru né þá staðreynd að fæstum kynferðisbrotamönnum er refsað eða að brotaþolar búa flestir við svo mikinn andlegan miska að það er eiginlega ótrúlegt að þeir skuli ekki myrða ofbeldismenn sína oftar en raun ber vitni (næstum aldrei)!


mbl.is „Ég er rokkstjarna - ekki foreldri!"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Anna Lísa Baldursdóttir
Anna Lísa Baldursdóttir
Móðir, kona, meyja. Misjöfn og mislynd, margreynd og málgefin. Menntuð en ómenningarleg á stundum. Ekki endilega í þessari röð.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband